Þór Breiðfjörð og Valgerður Guðnadóttir koma sjóðheit úr verðlaunasöngleiknum Vesalingunum og verða með hressa og kröftuga söngleikjadagskrá fyrir unga sem aldna í Stykkishólmskirkju fimmtudaginn 16. ágúst n.k. kl. 20:30. Bæði verða flutt nokkur af stórsönglögum söngleikjanna (Vesalingarnir, Óperudraugurinn) ásamt því að slegið verður á létta strengi og meðal annars flutt ýmis lög úr Disney-kvikmyndum eins og Alladín, Litlu hafmeyjunni, Skógarlífi, Gosa, Konungi ljónanna, Söngvaseiði og fleiru. Fullkomin skemmtun fyrir söngelsku fjölskylduna.

Þór sem á ættir sínar að rekja í Stykkishólm vann Grímuna í sumar fyrir að syngja aðalhlutverkið í söngleiknum Vesalingunum, sem sló öll aðsóknarmet síðastliðinn vetur. Valgerður á að baki farsælan feril bæði sem söng- og leikkona, vann meðal annars Grímuna fyrir söng sinn í söngleiknum Söngvaseið. Einnig er hún þekkt sem hin íslenska rödd margra Disney-persóna.

Aðgangseyrir kr. 2.000 / Frítt fyrir börn yngri en 16 ára.